Barnið eftir Jón Trausta er sjálfstætt framhald sögunnar Höllu og fyrsta bókin í ritröðinni Heiðarbýlið sem samanstendur af fjórum bókum. Hefst hún þar sem sögunni Höllu sleppir. Sögurnar nutu gríðarlegra vinsælda á sínum tíma, en segja má að með þessum sögum sínum hafi Jón Trausti haslað sér völl sem fyrsti metsöluhöfundur Íslands. Sögurnar rekja líf og örlög fólks við erfiðar aðstæður í sveit, en þann veruleika þekkti höfundur vel. Skapar hann í sögunum ógleymanlegar persónur og samfélag og lýsingar hans á náttúrunni og umhverfinu á heiðinni eru hreint út sagt stórkostlegar.
Til marks um það hvað Jón Trausti átti stóran sess í hjörtum sinnar samtíðar má t. a. m. vitna í orð Halldórs Kiljans Laxness úr bókinni Í túninu heima. Þar segir: „Jón Trausti, Guðmundur Magnússon frá Hrauntanga í Öxarfjarðarheiði, stendur mér fyrir hugskotssjónum sem einn mestur undramaður að verið hafi í íslenskri sagnasmíð fyrr og síðar. Allir vetur mínir heima eru tengdir minningunni um nafn þessa manns og verka hans."
-
- HÖFUNDUR:
- Jón Trausti
- ÚTGEFIÐ:
- 2011
- BLAÐSÍÐUR:
- bls. 201